Angela Carter

Í félagsskap úlfa

Hluti af olíumálverkinu El rapto de las sabinas (Rán Sabína-kvennanna) sem franski listmálarinn Nicolas Poussin málaði 1634 eða 1635. Afrit: Wikimedia.

Hér gefur að líta eina af smásögum Angelu Carter úr þekktasta verki hennar The Bloody Chamber er kom út 1979. Ekkert hefur verið þýtt af verkum hennar á íslensku þó að lesendur The Times hafi 2008 valið hana sem tíunda besta rithöfund Breta frá seinna stríði.

Í smásagnasafni sínu The Bloody Chamber leikur hún sér með endurtúlkanir á þekktum þjóðsagnaminnum og dregur fram það sem henni finnst vera hinn sanni kjarni sögunnar á litríkan og oft kaldhæðinn hátt. Í sögum Angelu eru kvenpersónurnar virkari og hafa meiri áhrif á framgang sögunnar en vant er í þjóðsögum og ævintýrum og hér er það löngun Rauðhettu til að kyssa myndarlegan ungan mann sem hefur afdrifaríkar afleiðingar.

Smásaga þessi, Í félagsskap úlfa (The Company of Wolves) í þýðingu Ingibjargar Gísladóttur, ber sterk höfundarleg einkenni. Andrúmsloftið er lævi blandið; það er líkt og sögumaður segi sögu sína við opinn eld í mið-evrópskum skógi eftir að farið er að skyggja. Sagan er ísmeygilega kímin (stundum er húmorinn kolsvartur) og málfarið ljóðrænt og skynrænt með kynferðislegum undirtóni. Eins og gjarnan sést hjá Carter má líta alls kyns umbreytingar enda gerist sagan á Vetrarsólstöðum, á mótum gamla ársins og hins nýja.

Í félagsskap úlfa — smásaga eftir Angelu Carter

Skepna ein, og aðeins ein, ýlfrar í skóginum um nætur.

Úlfurinn er rándýr rándýranna og hann er jafn slægur og hann er grimmur; hafi hann bragðað kjöt þá sættir hann sig ekki við neitt annað.

Að næturþeli skína augu úlfanna eins og kertalogar, gulleit, rauðleit, en það er af því að sjáöldur þeirra nærast á myrkri og grípa ljósið frá luktinni þinni til að kasta því til þín aftur – rautt merkir hættu; ef augu úlfs endurkasta einungis mánaskini þá er glampi þeirra kaldur og ónáttúrulega grænn, líkt og af steini, nístandi litur. Skyldi hinn síðbúni ferðalangur reka augun í þessa ægilegu, skínandi gulldúkata sem skyndilega eru festir á svart runnaþykknið, þá veit hann að hann verður að flýja, hafi óttinn ekki neglt hann niður.

En þessi augu eru allt sem þú munt sjá af morðvörgum skógarins þar sem þeir hópast ósýnilegir um lyktina af holdi þess sem ferðast um skóginn óráðlega seint. Þeir munu vera sem skuggar, þeir munu vera sem svipir, grár martraðarsöfnuður; heyr! langt ýlfur hans sem rís og dvínar … einsöngur heyranlegs ótta.

Söngur úlfsins táknar hljóðið sem myndast þegar þú verður slitinn í sundur, manndráp í sjálfu sér.

Það er vetur og kalt í veðri. Á þessu svæði fjalla og skóga er nú hvergi fæðu að fá handa úlfunum. Geitur og kindur eru lokaðar inni í peningshúsunum, hirtirnir farnir til hlíðanna í suðri þar sem enn er beit – úlfar verða horaðir og sultarlegir. Þeir hafa svo lítið kjöt á beinunum að það mætti telja rifbeinin gegnum feldinn, ef þú næðir því áður en þeir gerðu áhlaup. Þessi slefandi skoltur; lafandi tungan; hrímað munnvatnið á grásprengdum vöngunum – af öllu hættumori næturinnar og skógarins, draugum, svartálfum, óvættum sem grilla smábörn á teini, nornum sem fita fanga sína í búrum til að snæða þá síðar, þá er úlfurinn verstur því hann hlítir engum rökum.

Þú ert alltaf í hættu í skóginum þar sem ekki er neitt fólk. Stígðu inn í súlnagöng furutrjánna miklu þar sem lubbalegar greinarnar vefjastu um þig og veiða andvaralausa ferðamenn í net eins og gróandinn væri í liði með úlfunum sem búa þar, líkt og illviðirnir séu á veiðum fyrir vini sína – stígðu milli hliðstaura skógarins með áköfum beyg og hámarks aðgæslu því ef þú flækist eitt andartak af stígnum þá munu úlfarnir éta þig. Þeir eru gráir sem hungursneyð, þeir eru miskunnarlausir sem farsóttir.

Dapureyg börn hinna dreifðu þorpa bera alltaf á sér hnífa þegar þau fara út til að sinna litlu geitahjörðunum sem sjá býlunum fyrir rammri mjólk og þráum möðkuðum ostum. Hnífar þeirra eru nærri jafn stórir þeim, blöðin eru hvesst daglega.

En úlfarnir hafa sínar leiðir til að komast inn í hýbýli þín. Hvernig sem við reynum þá getum við ekki alltaf haldið þeim úti. Sú vetrarnótt kemur ekki að smábóndinn óttist ekki að sjá mjótt, grátt, soltið trýni snuðrandi undan hurðinni og eitt sinn var kona bitin í sínu eigin eldhúsi þar sem hún stóð og síaði hveitipípurnar.

Óttast og flý úlfinn; því hann getur verið annað og margfalt verra en hann sýnist vera.

Einu sinni ginnti veiðimaður er bjó skammt héðan úlf í gildru. Úlfur þessi hafði strádrepið kindur og geitur; étið gamlan vitfirring sem bjó einn í kofa uppi í miðri fjallshlíðinni og söng Kristi lof alla daga; stokkið á stúlku sem gætti kinda en hún var með þvílík læti að menn komu vopnaðir rifflum og hræddu hann burtu og reyndu að elta hann inn í skóginn, en hann var lúmskur og stakk þá auðveldlega af. Svo þessi veiðimaður gróf gryfju og setti önd í hana sem beitu, snarlifandi, og hann huldi gryfjuna með stráum smurðum úlfaskít. Kvakk, kvakk! heyrðist í öndinni og úlfur læddist út úr skóginum, hann var stór, hann var þungur, jafn þungur og fullorðinn maður og stráin létu undan þunga hans – hann féll ofan í gryfjuna. Veiðimaðurinn stökk niður á eftir honum, skar hann á háls og hjó af allar loppurnar til minja.

En þá lá alls enginn úlfur fyrir framan veiðimanninn heldur blóðugur búkur manns, höfuðlaus, útlimalaus, deyjandi, dauður.
Norn sem bjó ofar í dalnum breytti einu sinni öllum gestunum í brúðkaupsveislu í úlfa af því að brúðguminn hafði valið aðra stúlku. Hún var vön að láta þá heimsækja sig, að nóttu til, af tómri illgirni, og þeir sátu kringum kofann og ýlfruðu fyrir hana, næturljóð eymdar sinnar.

Fyrir ekki svo löngu giftist ung kona í þorpinu okkar manni sem hreinlega hvarf á brúðkaupsnóttina. Rúmið stóð uppbúið með nýju líni og brúðurin háttaði sig í það; brúðguminn sagðist ætla út til að létta á sér, krafðist þess í nafni góðra siða, og hún dró ábreiðuna upp að höku og hún lá þarna. Og hún beið og beið og beið lengur – hvað getur hafa orðið af honum? Uns hún snarast upp í rúminu og æpir er hún heyrir ýlfur berast með vindinum frá skóginum.

Þetta langdregna ýlfur sem rís og dvínar hefur þrátt fyrir sinn ógnvekjandi hljóm einhvern eðlislægan dapurleika í sér, eins og dýrin vildu vera minna dýrsleg ef þau aðeins vissu hvernig og hættu aldrei að harma ástand sitt. Það býr djúpt þunglyndi í sálmasöng úlfanna, þunglyndi jafn víðfeðmt og skógurinn, óendanlegt sem þessar löngu vetrarnætur en samt getur þessi skelfilegi dapurleiki, þessi tregi vegna óslökkvandi matarlöngunar þeirra, aldrei snert hjartað því ekki er í honum ein hending sem vísar til mögulegrar endurlausnar. Náðin gæti aldrei veist úlfinum vegna eigin örvæntingar, aðeins gegnum einhvern milligöngumann, svo að stundum gæti virst að dýrið hálfvegis fagnaði hnífnum sem bindur enda á líf þess.

Bræður ungu konunnar leituðu í útihúsunum og heyfúlgunum en fundu aldrei neinar leifar af manninum svo hin skynsama stúlka þerraði augun og fann sér annan eiginmann sem var ekki of feiminn til að pissa í kopp og hélt sig inni un nætur. Hún fæddi honum tvö mannvænleg börn og allt var í lukkunar velstndi þar til eina frostkalda nótt um vetrarsólstöður, veltiás ársins þá er hlutirnir eru ekki alltaf eins og þeir ættu að vera, lengstu nóttina, kom fyrri maki hennar heim aftur.

Þungt högg á dyrnar boðaði komu hans þar sem hún hrærði í súpunni fyrir föður barna sinna og hún þekkti hann aftur um leið og hún lyfti lokunni og opnaði fyrir honum þótt liðin væru mörg ár síðan hún klæddist svörtu hans vegna, en nú voru föt hans í henglum og hárið hékk niður á bak og hafði aldrei verið kembt, morandi í lús.

,,Hér er ég kominn aftur, kona mín góð,“ sagði hann. ,,Gefðu mér skál af káli og vertu snögg.“
 
Þá kom seinni maður hennar inn með eldivið og þegar sá fyrri sá að hún hafði sofið hjá öðrum manni og það sem verra var, rak rauð augun í litlu börnin hennar sem höfðu laumast inn í eldhúsið til að sjá hvað ylli þessum skarkala, þá æpti hann: ,,Ég vildi óska að ég væri aftur orðinn að úlfi til að taka í lurginn á þessarri hóru!“ Svo að úlfi varð hann á augabragði og sleit vinstri fótinn af eldri syninum áður en hann var höggvinn í spað með exinni sem þau notuðu til að höggva eldivið. En þegar úlfurinn lá í blóði sínu og tók síðustu andköfin þá féll hamurinn af honum aftur og hann var alveg eins og hann hafði verið fyrir mörgum árum þegar hann stakk af úr hjónasænginni, svo hún grét og seinni maður hennar barði hana.
 
Sagnir herma að Skrattinn eigi áburð sem breytir manni í úlf samstundis og hann ber hann á sig. Eða, að varúlfurinn hafi fæðst öfugur og átt úlf að föður og að búkurinn sé í mannsmynd en fæturnir og kynfærin sem á úlfi. Og hann hefur hjarta úlfsins.
 
Eðlilegt tilveruskeið varúlfs er sjö ár en ef þú brennir mennskan fatnað hans þá dæmirðu hann til að lifa sem úlfur til æviloka og því telja gamlar frúr hér í grendinni einhverja vörn í að henda hatti eða svuntu að varúlfinum, eins og fötin sköpuðu manninn. En á augunum, þessum sjálflýsandi augum, þekkirðu hann í öllum sínum myndum; augun ein taka ekki hamskiptum.
Áður en hann getur breyst í úlf, kastar mannúlfurinn af sér öllum klæðum. Skyldir þú sjá nakinn mann milli furutrjánna þá skaltu hlaupa eins og hinn vondi sjálfur væri á hælum þér.

Það er miður vetur og glóbrystingurinn, vinur mannsins, situr á handfanginu á reku garðyrkjumannsins og syngur. Nú er versti tími ársins hvað úlfa varðar en þessi viljafasta stúlkukind krefst þess að fá að fara gegnum skóginn. Hún er þess fullviss að villidýrin verði henni ekki að meini en fer þó að ítrekuðum viðvörunum og leggur skurðarhníf í körfuna sem móðir hennar hefu fyllt af ostum. Þar er flaska af bragðsterku víni gerðu úr brómberjum; slatti af flötum hafrakökum sem bakaðar voru á eldhellunni og ein eða tvær krukkur af sultu. Stúlkan með hörlita hárið ætlar með þessar ljúffengu gjafir til ömmu sinnar sem býr afskekkt, svo gamallar að farg ellinnar er við það að kremja hana til bana. Það tekur tvo tíma að þramma gegnum skóginn til ömmu að vetrarlagi; barnið vefur um sig þykku sjalinu, dregur það yfir höfuð sér. Hún stígur í sterklegu tréskóna sína; hún er klædd og ferðbúin og það er aðfangadagur. Hið óheillavænlega hlið vetrarsólstaðna sveiflast enn á hjörunum en hún hefur notið of mikillar ástar til að finna til ótta.

Börn verða ekki ung lengi í þessu harðbýla landi. Þau hafa engin leikföng til að leika sér að svo þau vinna mikið og vitkast en þessi stúlkukind, svo falleg, yngst í fjölskyldunni, lítið örverpi, hafði verið eftirlæti móður sinnar ög ömmu sem prjónað hafði handa henni rauða sjalið sem nú á dögum telst hafa hinn óheillavænlega en fagurrauða lit blóðs sem fallið hefur á snjó. Brjóst hennar eru nýlega farin að þrútna; hár hennar minnir á hör, svo ljóst að það myndar tæpast skugga á fölu enninu. Táknrænt er að kinnar hennar eru skarlatsrauðar og hvítar og hún er nýlega byrjuð að hafa tíðir; klukkan innra með henni mun slá einu sinni í mánuði frá þessum tíma.

Hún lifir og hrærist innan þess ósýnilega töfrahrings er umlykur meydóm hennar. Hún er óbrotið egg; hún er byrgt ílát; hún ber innra með sér undursamlegt svæði og er inngangnum kyrfilega lokað með himnu; hún er lokað kerfi; hún kann ekki að skjálfa. Hún hefur hnífinn sinn og hún óttast ekki neitt.

Faðir hennar gæti bannað henni að fara, væri hann heima, en hann er burtu í skóginum að safna eldiviði og móðir hennar getur ekki neitað henni um það.

Skógurinn laukst um hana líkt og skoltur.

Það er alltaf eitthvað að sjá í skóginum, jafnvel um miðjan vetur – fuglar sem hafa látið undan doða árstíðarinnar og hnappað sér saman í þústir, í haugum uppi á marrandi trjágreinum, og og heillum horfnir til að syngja; skærlitir vetrarsveppirnir á flekkóttum trjábolunum; fleygmynstraðar slóðir eftir kanínur og hirti, skárákóttar slóðir eftir fugla, héri jafn mjór sem flesksneið skýst yfir stíginn þar sem strjálir sólargeislarnir mynda díla á haustlitum burknabreiðum ársins sem nú er á enda.

Þegar hún heyrði úr fjarlægð nístandi gólið í úlfi þá greip þrautþjálfuð hönd hennar um skeftið á hnífnum en hún sá alls engin merki um úlf, eða nakinn mann en síðan heyrði hún háreysti inni í runnaþykkninu og alklæddur maður stökk út á stíginn, ungur og afar myndarlegur, í grænum veiðimannsjakka og með barðastóran flókahatt, klyfjaður fuglum sem hann hafði veitt. Við fyrsta brak í kvistum var hönd hennar á hnífnum en hann hló svo skein í hvítar tennurnar þegar hann sá hana og hann hneigði sig eilítið, á fyndinn hátt en þó eins og hann slægi henni gullhamra um leið. Hún hafði aldri séð slíkan sómasvein áður, ekki meðal búralegu kjánanna úr fæðingarþorpinu hennar. Svo áfram héldu þau saman, í kvöldhúminu sem óðum þéttist.

Brátt hlógu þau og göntuðust eins og gamlir vinir. Þegar hann bauðst til að bera körfuna hennar þá rétti hún honum hana jafnvel þótt hnífurinn hennar væri í henni, því hann sagði henni að riffillinn sinn myndi vernda þau. Er húma tók af degi fór aftur að snjóa; hún fann fyrstu flygsurnar lenda á augnhárunum en nú var aðeins hálf míla eftir og þá myndu þau setjast við eld, drekka te og fá hlýjar móttökur, alveg örugglega, bæði glæsilegi veiðimaðurinn og hún sjálf.

Ungi maðurinn hafði stórmerkilegan hlut í vasanum. Það var kompás. Hún leit á litlu kringlóttu glerskífuna í lófa hans og fylgdist með flögri nálarinnar án þess að vita almennilega hvað hún ætti að halda. Hann fullvissaði hana um að kompásinn hefði af öryggi vísað sér leið gegnum skóginn í veiðiferðinni vegna þess að nálin segði honum alltaf með mikilli nákvæmni hvar norður væri. Hún trúði því ekki; hún vissi að hún ætti aldrei að víkja af stígnum á leiðinni gegnum skóginn, gerði hún það myndi hún villast samstundis. Hann hló að henni aftur; glitrandi munnvatnsrákir voru á tönnunum. Hann sagði að ef hann myndi skjótast af slóðinni inn í skóginn sem umlykti þau þá gæti hann verið öruggur um að vera kominn að húsi ömmu hennar rúmum stundarfjórðungi á undan henni með því að sjá út bestu leiðina eftir skógarbotninum með kompásnum sínum á meðan hún þrammaði hina löngu leið eftir bugðóttum stígnum.

Ég trúi þér ekki. Og hvað með úlfana, ertu ekki hræddur við þá?

Hann bankaði bara á glansandi skeftið á rifflinum og glotti. Viltu veðja? spurði hann hana. Eigum við að fara í kapp? Hvað viltu gefa mér ef ég verð á undan þér að húsinu hennar ömmu?

Hvað myndir þú vilja? spurði hún undirförul á svip.

Koss.

Hún leit niður og roðnaði; alvanaleg viðbrögð við óheflaðri tælingu.

Hann hvarf inn í lággróðurinn og tók körfuna með sér en hún gleymdi að vera hrædd við villidýrin, jafnvel þótt tunglið væri að koma upp, því hana langaði til að dunda á leiðinni til að vera viss um að þessi myndarlegi sveinn myndi vinna veðmálið.

Húsið hennar ömmu stóð út af fyrir sig spölkorn fyrir utan þorpið. Nýfallinn snjórinn þyrlaðist upp í hringiður í matjurtagarðinum og ungi maðurinn tiplaði upp snjóugann stíginn að dyrunum eins og hann vildi ekki blotna í fæturna; hann sveiflaði bráð sinni og körfu stúlkunnar og raulaði lítinn lagstúf fyrir munni sér.

Sjá má eilítinn blóðblett á höku hans; hann hefur fengið sér smávegis fuglakjöt á leiðinni.

Hann barði að dyrum með hnúunum.

Aldin og veikburða hefur amma að mestu látið undan þeirri feigð er verkirnir í beinum hennar boða henni og er á mörkum þess að gefast endanlega upp. Drengur kom úr þorpinu fyrir klukkustund til að leggja í eldstóna fyrir nóttina og geislarnir frá eldinum kastast um eldhúsið líkt og þeir engist af hlátri. Hún hefur Biblíuna sína sér til halds og trausts því hún er guðhrædd gömul kona. Undir sér í lokrekkjunni hefur hún fjölmarga púða til að halda lengur í líftóruna, innvafin í bútasaumsteppið sem hún saumaði áður en hún gifti sig , en það var fyrir fleiri árum en hún kærði sig um að muna. Tveir postulínshundar með lifrarlitar skellur á feldinum og svört trýni sitja hvor sínu megin við arininn. Skærlit tuskumotta hvílir á gólfflísunum. Afaklukkan tifar og telur niður síðustu ævistundir hennar.

Velmegun okkar heldur úlfunum í burtu.

Hann barði að dyrum með hárugum hnúunum.

Það er ég amma, hermdi hann eftir með sópranröddu.

Lyftu lokunni og gakktu inn, elskan mín.

Það má þekkja þá á augunum, augum rándýrsins, næturflakkarans, skelfilegum augum, rauðum sem blóð; Þú getur hent Biblíunni þinni í áttina til hans og svuntunni þinni á eftir amma, þú hélst að það væri örugg vörn gegn þessum helvísku meindýrum … kallaðu nú á Krist og móður hans og á alla engla himnaríkis til að vernda þig en það mun ekki vera til neins. Dýrslegur skolturinn er skarpur sem hnífar; hann setur gullna byrði sína af nöguðum akurhænum á borðið og leggur einnig frá sér körfu elsku stúlkunnar þinnar. Ó, Guð minn góður, hvað hefurðu gert við hana?

Burt með dulargerfið, skógarlitann jakkann, hattinn með fjöður undir skrautbandinu. Hárflókinn fellur niður hvíta skyrtuna og hún sér lýsnar iðandi í honum. Drumbarnir í arninum hreyfast til og hvæsa; nóttin og skógurinn hafa komið inn í eldhúsið með myrkur í hári sínu.

Hann rífur sig úr skyrtunni. Húð hans er líkust bókfelli. Rönd af hrokknu og stríðu hári liggur niður kvið hans, geirvörturnar eru bústnar og dökkar líkt og ber húmjurtarinnar en hann er svo magur að telja mætti í honum rifbeinin ef tími gæfist til. Hann rífur sig úr buxunum og hún sér hversu loðinn hann er á fótleggjunum, Kynfæri hans, svo stór. Ó! gríðarstór.
 
Það síðasta sem gamla konan sá í þessum heimi var ungur maður með glæður í augum er nálgaðist rúmið hennar, nakinn sem fjörugrjót.
 
Úlfurinn er rándýr rándýranna.
 
Þegar hann hafði lokið sér af þá sleikti hann sig um kjammana og klæddi sig í flýti uns hann leit nákvæmlega út eins og þegar hann kom inn úr dyrunum. Hann brenndi óætt hárið í arninum og vafði beinin inn í munnþurrku sem hann faldi undir rúminu í trékistlinum þar sem hann fann hreinar rekkjuvoðir. Þær setti hann vandvirkislega á rúmið í staðinn fyrir blettóttu sönnunargögnin sem hann tróð í þvottakörfuna. Hann hristi upp í púðunum, breiddi úr bútasaumsteppinu, tók Biblíuna upp af gólfinu, lokaði henni og lagði hana á borðið. Allt var sem áður, nema hvað amma var horfin. Lurkarnir kipptust til i eldstæðinu, klukkan tifaði og ungi maðurinn sat þolinmóður og fullur flærðar við hliðina á rúminu með nátthúfuna ömmu á höfðinu.
Bamm- bamm- da- bamm

Hver er þar, segir hann með skræku og titrandi gamalmennisröddinni hennar ömmu.

Bara ég, ömmustelpan þín.

Svo kom hún inn og með henni dálítil snjódrífa sem bráðnaði og skildi eftir sig tár á flísunum og ef til vill var hún dálítið vonsvikin að sjá bara ömmu sína sitjandi við eldinn. En síðan henti hann af sér teppinu, stökk að dyrunum og stóð með bakið þétt við hurðina svo hún gæti ekki komist út aftur.

Stúlkan leit í kringum sig í herberginu og sá að það var ekki einu sinni laut að sjá á rennsléttum svæflinum og að Biblían lá lokuð á borðinu, þannir hafði hún aldrei séð hana áður. Tifið í klukkunni hljómaði eins og svipusmellir. Hún vildi svo gjarnan ná hnífnum úr körfunni sinni en hún vogaði sér ekki að teygja sig í hann því augu hans hvíldu á henni – stór augu sem virtust nú leiftra af sérkennilegri innri birtu, augu sem undirskálar, skálar fullar af glóandi kolum, djöfullega sjálflýsandi.

En hvað þú ert með stór augu.

Það er svo ég geti séð þig betur.

Alls engin ummerki um gömlu konuna nema brúskur af hvítu hári sem hafði festst í berkinum á óbrunnum trjábút. Þegar stúlkan sá það þá vissi hún að hún væri í lífshættu.

Hvar er amma mín?

Það er enginn hérna nema við tvö, elskan mín.

Nú heyrðist hátt ýlfur sem fyllti loftið, nærri, mjög nærri, í eldhúsgarðinum, ýlfur herskara úlfa; hún vissi að verstu úlfarnir eru loðnir að innan og hún skalf þrátt fyrir blóðrauða sjalið sem hún vafði fastar utan um sig eins og það gæti verndað hana, þótt að það væri rautt eins og blóðið sem hún hlýtur að missa.

Hverjir eru komnir að syngja okkur jólalög, sagði hún.

Þetta eru raddir bræðra minna, elskan; mér líður vel í félagsskap úlfa. Líttu út um gluggann og þú munt sjá þá.

Snjór þakti hálfan sprotagluggann og hún opnaði hann til að sjá inn í garðinn. Nóttin var hvít, tunglsljós og snjór. Bylurinn þyrlaði upp snjónum í kringum mögru gráu dýrin sem sátu á hækjum sér innan um raðir af vetrarkáli, otuðu frammjóum trýnunum að tunglinu og ýlfruðu eins og þau væru yfirkomin af sterkum tilfinningum. Tíu úlfar, tuttugu úlfar – svo margir úlfar að hún gat ekki talið þá, ýlfrandi í samhljómi eins og þeir væru óðir eða ærir. Augu þeirra endurköstuðu ljósinu frá eldhúsinu og skinu eins og hundrað kerti.

Þeim er mjög kalt, veslings dýrunum, sagði hún; það er ekki skrýtið að þau ýlfri svona.

Hún lokaði glugganum á harmljóð úlfanna og tók af sér blóðrauða sjalið sem bar lit draumsóleyjar, lit fórna, lit tíða hennar og af því að óttinn nýttist henni ekki neitt þá hætti hún að vera hrædd.

Hvað á ég að gera við sjalið mitt?

Hentu því á eldinn, yndið mitt. Þú þarft ekki framar á því að halda.

Hún vöðlaði saman sjalinu og fleygði því á eldinn sem gleypti það á augabragði.

Síðan dró hún blússuna yfir höfuð sér; litlu brjóstin endurköstuðu birtunni og það var sem snjórinn hefði komist inn í herbergið.
Hvað á ég að gera við blússuna mína?

Á eldinn með hana, krúttið mitt.

Þunnt músselínið fuðraðist upp strompinn eins og fugl í ævintýri og nú fór hún úr pilsinu, ullarleistunum, skónum og á eldinn fór það líka og var horfið að eilífu. Ljósið frá eldinum skein í gegnum ysta lag húðar hennar; nú var hún aðeins íklædd sínu ósnortna holdi. Ægibjört, nakin, leysti hún hár sitt með fingrunum; það virtist hvítt eins og snjórinn fyrir utan. Gekk síðan beint til mannsins með rauðu augun og lýsnar í úfnu hárinu; hún stóð á tám og losaði kragahnappana á skyrtunni hans.

En hvað þú ert með stórar hendur.

Það er svo ég geti betur faðmað þig.

Allir úlfar í heiminum ýlfruðu nú brullupsljóð fyrir framan gluggann og hún gaf honum mótþróalaust kossinn sem hún skuldaði honum.

En hvað þú ert með stórar tennur!

Hún sá hvernig slefan rann niður kjálkann og í herberginu endurómuðu söngvar um banvæna ást en hið vitra barn haggaðist ekki, jafnvel þegar hann svaraði:

Það er svo ég eigi auðveldara með áð éta þig.

Stúlkan fór að skellihlæja; hún vissi að hún yrði ekki étin. Hún hló upp í opið geðið á honum, hún reif hann úr skyrtunni og kastaði henni á eldinn í kjölfar fatanna sem hún hafði losað sig við. Logarnir dönsuðu eins og dauðar sálir á Valborgarmessu og gömlu beinin undir rúminu glömruðu ógurlega en hún lét sem hún vissi ekki af þeim.

Rándýr rándýranna, aðeins flekklaust hold sefar það.

Hún mun leggja óttalegt höfuð hans í kjöltu sína og hún mun týna lýsnar úr feldi hans og kannski mun hún stinga lúsunum upp í sig og borða þær, eins og hann mun fyrirskipa henni, eins og í frumstæðri pörunarathöfn.
 
Bylurinn mun ganga yfir.
 
Bylurinn gekk yfir og fjöllin litu út eins og tilviljun hefði ráðið hvar snjórinn féll. Það var eins og blind kona hefði kastað laki yfir þau, snjórinn límdist við efstu greinar furutrjánna sem brakaði í, þrútnum af hausti.
 
Snjóbirta, mánaskin, kraðak loppufara.
 
Allt hljótt, allt kyrrt.
 
Miðnætti; og klukkan slær. Jóladagur er runninn upp, afmælisdagur varúlfanna, dyr vetrarsólstaðna standa galopnar; leyfið þeim öllum að koma.
 
Sjá! yndisfríð og örugg sefur hún í rúminu hennar ömmu, umvafin loppunum á hinum blíða úlfi.

Angela Carter var enskur skáldsagnahöfundur, smásagnahöfundur, ljóðskáld og blaðamaður. Hún var þekkt fyrir píkaresk verk, töfraraunsæi og róttækar ádeilur með femínísku ívafi. Kunnasta bók hennar er Blóðugi salurinn og aðrar sögur (The Bloody Chamber and Other Stories) sem kom út árið 1979.


Share This